Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 457/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 457/2023

Miðvikudaginn 24. janúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 23. september 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. ágúst 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 3. júlí 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 31. ágúst 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með beiðni 7. september 2023 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar sem var veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. september 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. september 2023. Með bréfi, dags. 27. september 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. október 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. október 2023. Læknisvottorð, dags. 27. nóvember 2023, barst frá kæranda og var það sent Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 11. desember 2023, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. desember 2023.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi verið óvinnufær vegna veikinda síðan 1. september 2022. Kærandi hafi verið greindur með ólæknandi sjálfsofnæmissjúkdóm, ofvirkan skjaldkirtil og sykursýki 1 (insúlínháð) og hafi hann verið „stabíliseraður“ með lyfjum sem hann muni þurfa að taka ævilangt. Einkenni sjúkdómsins geri það að verkum að kærandi geti ekki unnið, auk þess sé hann með bakverki og stoðkerfisvandamál sem hann þurfi að lifa með. Sjúkraþjálfun hafi ekki skilað neinu og fyrir nokkrum árum hafi kærandi meðal annars farið í gegnum endurhæfingu á Reykjalundi sem hafi ekki skilað árangri. Læknir mæli ekki með aðgerð. Vissulega hafi þetta verið stórt áfall að greinast með þrjá ólæknandi sjúkdóma eftir að hafa farið í veikindaleyfi frá vinnu án þess að vita af hverju hann hafi alltaf verið veikur. Í kjölfarið hafi kærandi verið greindur með áfallastreitu. B læknir hafi metið kæranda óvinnufæran og að endurhæfing sé óraunhæf. Hann hafi einnig farið í sérhæft mat hjá VIRK sem hafi staðfest óvinnufærni hans og að hann ætti að sækja um örorku.

Kæranda hafi verið neitað um örorku á þeim forsendum að hann sé með áfallastreitu vegna veikindanna og að færni muni aukast á vinnumarkaði fái hann meðferð við henni, sem sé þvert á móti ráðleggingum læknis sem telji hann óvinnufæran. Það að geta ekki unnið og stutt fjölskyldu sína fjárhagslega hafi verið mjög erfitt andlega þar sem hafi verið tekjulaus í marga mánuði. Kærandi sé giftur og saman eigi þau X börn, þar af […] sem hafi fæðst […].

Kærandi ætli að biðja lækninn um að skrifa nýtt bréf til að staðfesta að forsendurnar sem hann hafi fengið fyrir neitun um örorku, þ.e. að ekkert sé hægt að gera við bak kæranda og andlega líðan hans, sem hann hafi nú þegar fengið hjálp með, sé byrjaður á þunglyndislyfjum, sé ekki að fara auka færni hans á vinnumarkaði. Það sé auðvitað streituvaldandi að vera óvinnufær, að vera neitað um endurhæfingu á þeim forsendum að hún sé óraunhæf og fá svo neitum um örorku á þeim forsendum að bætt andleg líðan muni bæta færni hans á vinnumarkaði þegar hann sé að glíma við ólæknandi sjúkdóma sem geri það að verkum að hann sé óvinnufær.

Kærandi hafi ekki fæðst á Íslandi en hann tali góða íslensku. Samkvæmt læknisvottorði heimilislæknis kæranda hafi honum verið gert það ljóst að ekkert sé hægt að gera varðandi bakið, aðgerð muni ekki skila árangri og að hann muni þurfa að lifa með þessu og taka verkjalyf daglega. Svo virðist sem að læknirinn hjá VIRK hafi misskilið eitthvað, hann hafi talað um að vísa kæranda til bæklunarlæknis, læknir kæranda hafi mælt gegn því.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 24. og 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. breytingalög nr. 18/2023, þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Nánar sé fjallað um framkvæmd endurhæfingarlífeyris í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila.

Heimilt heildargreiðslutímabil endurhæfingarlífeyris hafi verið lengt úr 36 mánuðum í 60 mánuði með lögum nr. 124/2022 sem hafi tekið gildi 1. janúar 2023.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði 24. og 30. gr. laga um almannatryggingar. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Í 45. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um endurmat örorku með umsókn, dags. 3. júlí 2023. Með örorkumati, dags. 31. ágúst 2023, hafi kæranda verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing væri ekki fullreynd. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi fyrir synjuninni með tölvupósti 7. september 2023 sem hafi verið svarað með bréfi, dags 19. september 2023.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 31. ágúst 2023 hafi legið fyrir umsókn, dags. 3. júlí 2023, læknisvottorð B, dags. 8. ágúst 2023, og starfendurhæfingarmat VIRK, dags. 30. júní 2023.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í framangreindu læknisvottorði B.

Í niðurstöðu starfsendurhæfingarmats VIRK, dags. 30. júní 2023, telji C læknir að starfsendurhæfing sé óraunhæf á þessum tímapunkti og meiri stöðugleiki í líðan þurfi að nást. Vegna andlegra einkenna í viðtalinu hafi honum verið ráðlagt að leita á bráðamóttöku geðsviðs. Mælt hafi verið með tilvísun á göngudeild geðdeildar LSH vegna hamlandi kvíða- og áfallaeinkenna. Einnig hafi verið mælt með að fá álit bæklunarlæknis vegna bakeinkenna.

Tryggingastofnun telji að kæranda hafi réttilega verið synjað um örorkumat á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2023, kemur fram að farið hafi verið yfir upplýsingar sem hafi komið fram í viðbótargögnum en þær gefi ekki tilefni til breytingar á afgreiðslu stofnunarinnar í málinu. Í málinu hafi verið kærð synjun á örorkumati á grundvelli þess að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd og viðbótargögn þessi styðji þá niðurstöðu.

Kærandi hafi nú sótt um endurhæfingarlífeyri.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. ágúst 2023 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 8. ágúst 2023. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„ACUTE STRESS/TRANS/SITUAT DISTURB

HYPERTHYROIDISM

MJÓBAKSVERKIR (LUMBAGO)

ÓTILGREIND SYKURSÝKI MEÐ ÓTILGREINDUM FYLGIKVILLUM“

Um fyrra heilsufar segir meðal annars í vottorðinu:

„Vísa í neðangreinda sögu. A er með talsverða heilsufarssögu.

Nýlokið ítarlegu matsferli hjá VIRK 28.06.2023. Maðurinn metinn óvinnufær og starfsendurhæfing nú metin óraunhæf.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir í vottorðinu:

„Undirritaður hefur fylgt A eftir og sendi tilvísun á VIRK í apríl 2023.. Ítarleg greinargerð í kjölfarið frá C lækni VIRK nú í lok júnímánaðar.

A er X ára gamall, fæddur í E en uppalinn í E. Erfið barnæska. Missti föður sinn og áfallasaga, [...] að mennt. Flutti til Íslands árið X. Síðastliðin ár vaxandi verkir, aðallega í baki og brjóstkassa. Lent í slysum, bæði 2011 og 2019. Fyrir liggur niðurstaða CT frá desember 2022 sem sýndi intra spongious disc herniation í neðri endaplötu Th7 og slitbreytingar. Maðurinn leitaði til undirritaðs sem sendi áfram í frekari rannsóknir. Blóðrannsókn sýndi hækkaðan blóðsykur auk þess ofstarfsemi á skjaldkirtli (Graves disease). Verið í eftirliti innkirtlalækna og kominn á insulin auk meðferðar við ofvirkum skjaldkirtli

Löng saga um kvíða- og þunglyndiseinkenni. Einnig áfallastreitueinkenni. Staðan í dag í raun mjög slæm. Saga um útbreidda bakverki og meðferðarúrræði eins og

sjúkraþjálfun ekki að gagnast, fer frekar versnandi. Á erfitt með allt álag og þarf að taka verkjalyf oft á dag.

Að auki hamlandi kvíðaeinkenni og áfallastreita kemur skýrt fram, að fá t.d. endurupplifanir og martraðir.ngar. Í viðtali hjá undirrituðum og lækni VIRK kemur fram stöðugur undirileggjandi kvíð, depurð og vanlíðan. Á í raun erfitt með að lýsa líðan sinni og vill fá hjálp. Mikil einkenni koma fram á matskvörðum, bæði andleg og líkamleg.

Erfiðar félagslegar aðstæður, með stóra fjölskyldu, X börn, þar af […].

Þar sem mjög löng bið er eftir meðferðarúrræðum á LSH skrifaði ég tilvísun á KMS stöðina. Íhuga í framhaldi tilvísun einnig á LSH i ljósi streituröskunareinkenna.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„A kemur í viðtalið andlega búinn á því segir hann. Langþreyttur á stöðugum verkjum, dapur, leiður, neitar sjálfsvígshugsunum.

Talsvert álag á heimili […] / stór fjölskylda X börn.

Búinn að fara í gegnum VIRK ferli endurhæfing ekki talin nú raunhæf.

sk

stirður í hreyfingum þegar stendur upp eða sest niður.

grætur í viðtal, lýsir leiða vonleysi. neitar mótuðum sjálfsvigshugsunum en lífsleiði.

skýr í frásögn“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við því að færni aukist eftir endurhæfingu. Í frekara áliti læknisins á vinnufærni kæranda segir:

„A glímir við fjölþætt veikindi. Útbreiddir stoðkerfisverki. Einkenni áfallastreituröskunar, mikill undirliggjandi kvíði.

Greindur með ofstarfsemi á skjaldkirtili og insulinháða sykursýki.“

Í athugasemdum segir:

„Maðurinn er óvinnufær. Langt ferli framundan. Framundan fyrirsjáanlegt langt matsferli m.t.t. streiuröskunar - / kvíðaeinkenna.

Auk þess undirliggjandi króniskur verkjavandi frá baki. Maðurinn er byrjaður á SSRI lyfjameðferð. Er í eftirliti innkirtlalæknia á göngudeild LSH. Beiðni á kvíðameðferðarstöð í frekara matsferli og mun áfram vera í eftilti lækna F m.t.t framhaldsins.

Tel raunhæft að sækja um fulla örorku til 2ja ára en endurmeta að þeim tíma líðnum.“

Í starfsgetumati VIRK, dags. 28. júní 2023, segir í samantekt og áliti:

„X ára gamall maður, fæddur í D en uppalinn í E. Erfið barnæska. Missti föður sinn og áfallasaga, […] að mennt. Flutti til Íslands árið X. Síðastliðin ár vaxandi verkir, aðallega í baki og brjóstkassa. Lent í slysum, bæði 2011 og 2019. Fyrir liggur niðurstaða CT frá desember 2022 sem sýndi intra spongious disc herniation í neðri endaplötu Th7 og slitbreytingar. Blóðrannsókn sýndi hækkaðan blóðsykur auk þess ofstarfsemi á skjaldkirtli (Graves disease). Verið í eftirliti innkirtlalækna og kominn á insulin auk meðferðar við ofvirkum skjaldkirtli. Löng saga um kvíða- og þunglyndiseinkenni. Einnig áfallastreitueinkenni. Staðan í dag í raun mjög slæm. Miklir verkir og meðferðarúrræði eins og sjúkraþjálfun ekki að gagnast, fer frekar versnandi. Á erfitt með allt álag og þarf að taka verkjalyf oft á dag.

Að auki hamlandi kvíðaeinkenni og áfallastreita kemur skýrt fram, að fá t.d. endurupplifanir og martraðir. Í viðtalinu kemur fram mikil vandlíðan, kvíði og lýsir vonleysi. Stirður og sárar hreyfingar. Á í raun erfitt með að lýsa líðan sinni og vill fá hjálp. Mikil einkenni koma fram á matskvörðum, bæði andleg og líkamleg.

Erfiðar félagslegar aðstæður, með stóra fjölskyldu, X börn, þar af […]. Mat undirritaðs að starfsendurhæfing sé óraunhæf á þessum tímapunkti og meiri stöðugleika í líðan þurfi að ná nást. Vegna andlegra einkenna í viðtalinu ráðlagt að leita á bráðamóttöku geðsviðs. Mæli annars með tilvísun á göngudeild geðdeildar LSH vegna hamlandi kvíða- og áfallaeinkenna. Myndi einnig mæla með að fá álit bæklunarlæknis vegna bakeinkenna.

30.06.2023 14:11 - C

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá VIRK er talin óraunhæf.

Mat undirritaðs að starfsendurhæfing sé óraunhæf á þessum tímapunkti og meiri stöðugleika í líðan þurfi að ná nást. Vegna andlegra einkenna í viðtalinu ráðlagt að leita á bráðamóttöku geðsviðs. Mæli annars með tilvísun á göngudeild geðdeildar LSH vegna hamlandi kvíða- og áfallaeinkenna. Myndi einnig mæla með að fá álit bæklunarlæknis vegna bakeinkenna.“

Undir rekstri málsins barst læknisvottorð G, dags. 27. nóvember 2023, en þar segir um fyrra heilsufar:

„A was admitted to 33C Móttökugeðdeild because of increasing psychotic symptoms. He described hearing three commanding voices (his father ́s and his grandfather ́s voice and one voice he cannot identify) that tell him to hurt himself or people in his surroundings. He tries to fight them because he knows that his father would never tell him to do something bad. Connects the voices to evil forces. He also has paranoid symptoms. So, for example he during his wife ́s pregnancy he did not want her to visit friend because he was worried, she might be poisoned. Also, he feels like he is being watched and closes all curtains at home because of that.

A says that he has first heard those voices after he was […] in H at the age of X. He was with a friend who was […] and A also had severe injuries and was hospitalized for three months. After that he experienced flashbacks and intrusions and started hearing voices that became more intense after his father died in a car accident X but then calmed down again until he was diagnosed with Graves and diabetes I this year. When admitted he was hearing the voices constantly during day and night. To make them stop A hurts himself by banging his head against the wall or hitting himself. A did not report suicidal thoughts. He wants to live and to be there for his children.

An application for PTSD treatment from his general practitioner to Landspítali ́s services was denied in June 23.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að búast megi við því að færni aukist eftir endurhæfingu. Þá segir að hann sé á biðlista hjá geðrófsteymi.

Í athugasemdum segir:

„Because of his multiple diseases A is not able to work. An application for Geðrófsteymi was made but A will need soma time to process his complex situation. He is also under the supervision of an endocrinologist and is in regular contact with his general practitioner.

Therefore it is reasonable to apply for full disability for two years and re-evaluate after that time.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri var læknisvottorð B, dags. 31. október 2023, og þar er greint frá sömu sjúkdómsgreiningum og koma fram í læknisvottorði B, dags. 8. ágúst 2023, en auk þeirra er greint frá þunglyndi. Í samantekt segir um framtíðarvinnufærni:

„Ég tel mögulegt að hann nái vinnufærni eftir meðferð en ljóst að bataferlið verður langt. Stefnt að vinnufærni innan 2ja ára.“

Eftirfarandi endurhæfingaráætlun er svohljóðandi:

„Ljóst að langt ferli framundan og í ljósi synjunar TR á örorku sótt um endurhæfingarlífeyri. Legg upp með eftirfarandi:1. Sendi tilvísun á geðteymi LSH sérst. m.t.t. einkenna áfallastreituröskunar.2. Betri af verkjum almennt og stirðleiki allur minni. Sendi tilvísun á Hæfi endurhæfingu sérst. m.t.t sjúkraþjálfunar / iðjuþjálfunar auk aðkomu endurhæfingarlæknis og mati bæklunarlæknis Hæfis.3. Áður send tilvísun á KMS stöð í ljósi fyrirrsjáanlegs langs biðtíma á innköllun geðteymis LSH 4. Áælta að fylgja A eftir í viðtölum undirritaðs x1-2 mánuði.5. Markmiðssetning með tilliti til aukinnar virkni og hreyfingar. Daglegar gönguferðir.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt þágildandi 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af andlegum og líkamlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur ekki verið í starfsendurhæfingu. Í fyrrgreindu læknisvottorði B, dags. 8. ágúst 2023, og læknisvottorði G, dags. 27. nóvember 2023, kemur fram að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu. Í læknisvottorði B er fjallað um krónískan verkjavanda og meðal annars kemur fram að kærandi eigi langt ferli framundan hvað varðar streituröskun og kvíðaeinkenni. Auk þess kemur fram í vottorðinu að búast megi við að færni kæranda muni aukast eftir endurhæfingu. Í starfsgetumati VIRK, dags. 28. júní 2023, kemur fram að starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin óraunhæf og að meiri stöðugleika í líðan þurfi að nást. Mælt var með tilvísun á göngudeild geðdeildar Landspítala vegna hamlandi kvíða- og áfallaeinkenna auk álits bæklunarlæknis. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki þegið endurhæfingarlífeyri. Læknisvottorð B, dags. 31. október 2023, var meðfylgjandi umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í vottorðinu kemur fram að mögulegt sé að kærandi nái vinnufærni eftir meðferð en ljóst að bataferlið verði langt. Enn fremur er greint frá því að endurhæfing muni meðal annars samanstanda af aðkomu geðteymis Landspítala, Hæfis, sérstaklega með tillit til sjúkraþjálfunar og/eða iðjuþjálfunar og aðkomu lækna þar, aðkomu KMS stöðvar og viðtala við heimilislækni einu sinni til tvisvar í mánuði.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf en ekki verður dregin sú ályktun af niðurstöðu VIRK að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Nefndin telur að ráðið verði af fyrrgreindu læknisvottorði B og eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti komið honum að gagni, enda liggur fyrir áætlun um að reyna endurhæfingu frekar. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. ágúst 2023, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum